Pleasure, pleasure!

20.9.04

Blogg Njarðar
Ég kom heim frá Hólum í Hjaltadal núna fyrr í kvöld með áfast sólheimaglott. Það sem staðurinn hefur upp á að bjóða kom mér ótrúlega á óvart. Starfsfólkið í Hólaskóla er þvílíkt almennilegt og þeir fyrirlestrar sem við hlýddum á (reyndar klukkan átta um morguninn!!!) voru ótrúlega góðir. Á meðal þess sem kom fram er að Ísland er algjört töffaraland þróunarfræðilega séð. Hér eru aðeins 6 tegundir ferskvatnsfiska sem komu hingað í fyrsta lagi fyrir 10 þúsund árum. Enginn samkeppni ríkti hér því þegar t.d. bleikjan kom í Þingvallavatn sem olli því að það fyllist af bleikju. Hún fór því að keppa við sjálfa sig sem olli því að hún fór að sérhæfa sig sem endaði með því að fjögur afbrigði hennar urðu til í sama vatninu sem er einstakt í heiminum. Fiskifræðitöffarnir (ef eitthvað slíkt er til) sem m.a. skrifa kennslubækurnar okkar eru slefandi yfir þessu öllu saman. Á hólum er svo verið að byggja upp öfluga rannsóknaraðstöðu í kringum fiskeldið sem er gott að hafa í huga þegar maður velur sér mastersverkefni. Hitt sem kom mér á óvart er hve merkilegur staður Hólar eru sögulega séð. Maður vissi náttúrulega að þetta væri biskupssetur með Gumma góða og Guðbrandi og allt það. Það sem ég vissi ekki var t.d. að þarna var 600 manna miðaldaþorp á tímum Guðmundar góða sem nú er verið að grafa upp. Samkvæmt Skúla rektor er þetta best varðveitta miðaldaþorp við dómkirkju í Evrópu þar sem byggt var alltaf yfir þau í öðrum löndum. Þar sem þorpið var hálf alþjóðlegt eru fornleifafræðingar úti hálf slefandi yfir þessu. Annað sem ég hafði ekki hugmynd um er að timburhús sem byggt var við Hóla á 13. öld og stóð þar í 500 ár hefur verið endurbyggt. Það var rifið á 19. öld (díj!) en í þessu húsi bjuggu eða voru m.a. Þorlákur Guðbrandsson, Hallgrímur Pétursson, Jón Arason og Galdra-Loftur. Það hefði verið geggjað ef þetta hús hefði ekki verið rifið en það hafa sennilega verið forfeður Hauks sem að því stóðu. Húsið má sjá innan myndanna sem ég tók en þær má finna hér! Allir að drífa sig á Hóla svo!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home