Pleasure, pleasure!

30.4.03

Sir Max Filth!
Það er óhætt að segja að þessi dagur hafi verið hásubbulegur lærdómslega séð. Ég er varla búinn að gera handtak nema spila á píanóið. Því dreif ég mig til ömmu og afa að læra þar sem ég er núna á netinu og er á leiðinni til Sigga að góna á spólu ásamt Magga púka. Foj!

29.4.03

Mér finnst að það ætti að taka upp þérun aftur á Íslandi en þó í breyttu formi. Aðeins háskólagengið fólk yrði þérað!

28.4.03

Heimboðsgagnrýni
Ég tók aðeins niður fyrir mig í kvöld og þáði heimboð til Manna og Huldu í Fossvognum. Þar vakti margt hneykslun mína og undrun og ber þar fyrst að nefna óviðeigandi klæðnað Marinós. Hulda var huggulegri til fara en ægilegt var að sjá að hluti leirtausins sem notað var með kaffinu var þýfi. Við gestirnir minntumst pent á þetta en hjúunum virtist standa á sama og sneru þessu upp í grín. Enn kom Marinó á óvart með óviðeigandi hegðun á meðan á kaffinu stóð. Hann lék sér sífellt við páfagaukinn og leyfði honum meira að segja að ganga á borðinu þar sem kræsingarnar voru. Marinó áttaði sig greinilega ekki á því hvað hegðun hans var fráheyrð enda mjög ódannaður. Hápunktur eða öllu heldur lágpunktur kvöldsins var þegar ég fór á klósettið og uppgötvaði að þar vantaði handklæði til að þurrka sér um hendurnar.

Heimboðið hefði fengið falleinkunn ef Hulda hefði ekki boðið upp á svona góðan heitan brauðrétt og köku. Þau þurfa aðeins að hugsa sinn gang og vanda sig betur næst þegar þau bjóða fínu fólki í heimsókn.

26.4.03

Haukur ljóðskáld
Það er nú orðið frekar langt síðan Haukur hefur sent mér ljóð eftir sig hér til birtingar en eftir heimsókn hans til mín nú í vikunni hefur andinn greinilega svifið yfir hann og afraksturinn má lesa hér. Mér finnst hann heldur subbulegur þó.

Ef aðeins . . . .
Mistur fegurðar, dulúðar og þokka,
umlykur líkama þinn,
þar sem þú í speki á spítala liggur

Mig langar að snerta þig.
Þori ekki.
Er hræddur við hugsanir mínar,
fyrirlít mig

Dagfari gapir.
Húmið er kalt.

Ó, hví var móðir mín ekki óbyrja?


Haukur Gunnarsson

25.4.03

Hönkið er komið heim!
Ég hef snúið heim öllum til gríðar gleði. Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir en peningar gætu komið sér mjög vel.

21.4.03

Mikið afskaplega finnst mér Og vodafone vera ljótt nafn!

Þýfissötur
Ég er ekki frá því að stolni bjórinn sem ég er að drekka núna frá pabba mínum sem sefur nú vært haldandi að hann eigi ískaldan Stella Artois bjór bíðandi eftir sér sé með betri bjórum sem ég hef smakkað. Kannski er það því hann er þýfi en þetta er einn uppáhaldsbjór pabba og hefur hann nú kyngt ýmsu í þeim efnum. Annars er stemmningin núna voðalega notaleg hjá mér. Ég sit einn inni í stofu gerandi lífefnafræðiskýrslu, sötrandi bjór, hlustandi á noktúrnurnar hans Chopins. Svo er til fólk sem segir að ég sé haugur og nenni ekki að læra. Ég blæs á það!

20.4.03

Ég vil nota tækifærið þar sem ég held hér úti mjög vinsælli síðu og óska öllum þeim sem mér er vel við gleðilegra páska!

Flokkagums
Samkvæmt þessari könnun sem ég sá fyrst hjá Eddu er fylgi mitt við flokkana svona:

Vinstri grænir - 54%
Samfylkingin - 54%
Frjálslyndi flokkurinn - 54%
Framsóknarflokkurinn - 38%
Sjálfstæðisflokkurinn - 31%

Þetta kom mér lítilega á óvart en er vel innan velsæmismarka. Svo er ég sammála Eddu í því að gaman yrði að sjá hvað Haukur myndi fá út úr þessari könnun. Ég er þó þess fullviss að hann myndi meðvitað eða ómeðvitað haga svörum sínum þannig að Sjálfstæðiflokkurinn fengi sem hæsta prósentutölu. Það væri ekkert nýtt hjá Hauki að svindla þannig í netkönnunum en fólki er enn í fersku minni er hann fékk út Aragorn í Hringadróttinssöguprófinu.

19.4.03

Línan
Ég gerði dauðaleit á netinu áðan að línukallinum sem var í sjónvarpinu hér í fyrndinni. Ég hef séð núna nokkra þætti á skandinavísku stöðvunum og þetta er bara hreinasta snilld! Maður hafði ekki nógu þroskaðan húmor fyrir þessu þegar maður var yngri og vil ég fá þetta aftur á skjáinn!

Það er nokkuð fyndið að renna í gegnum þetta hérna.

17.4.03

Það er alltaf verið að fjalla um fylgiskannanir í fjölmiðlum en hvergi er minnst á mína. Það er alveg glatað. Samkvæmt henni er þetta alveg æsispennandi og hinir óákveðnu munu hafa mikil áhrif á úrslitin.

Vinstri grænir 1 (4%)
Sjálfstæðisflokkurinn 7 (33%)
Framsóknarflokkurinn 0 (0%)
Samfylkingin 7 (33%)
Frjálslyndir 1 (4%)
Ég er óákveðin/n 5 (23%)

Heildaratkvæði 21

Sögur úr samtímanum
Þegar ég smakkaði lækningargulrótarsafann frá mömmu hennar Eddu í fyrsta sinn um daginn þá skaut upp í kollinn af mér mynd af litlum dollum. Þetta var eitthvað bragð sem ég hafði ekki fundið lengi. Svo sagði ég mömmu frá þessu sem sagði mér að meðan ég var að kúka í mig í Svíþjóð hafi þau gefið mér sérstakan sænskan barnamat með gulrótarstöppu einmitt úr svona dollum. Magnað!

16.4.03

Haukur Fabio!
Fabio svipur Hauks er nú orðið vel þekkt fyrirbæri enda er hann með einsdæmum asnalegur. Hann reyndi að halda því fram að myndirnar úr afmælinu sem urðu þess valdandi að þessi ósköp uppgötvuðust væri undantekning sem er bull og vitleysa. Árátta hans til að vera kúl sviptir hann öllum tengslum við raunveruleikann með þessum subbulegu afleiðingum. Beggi var að benda mér á þessa mynd hér þar sem fabisminn skín úr svip hans sem aldrei fyrr. (Takið eftir tómatsósuklessinu á enninu)

14.4.03

Edda kom áðan með Friends á DVD og gulrótarsafa frá móður sinni sem á að hjálpa mér í veikindum mínum og á hún bestu þakkir skildar. Hún hefur gott hjarta annað en þið hin sem ekkert hafið komið með handa vesalings mér.

Svo fagna ég því vissulega að Sigga beib sé búin að setja inn fullt af nýjum myndum af misvirðulegum djömmum. Ég ætla þó ekki að vísa í þær.


Hönkar í fíling. Annar þó áberandi meira hönk (vinstra megin).

13.4.03

Kosningarnar
Vá hvað ég er eitthvað ruglaður í þessari kosningabaráttu. Ég veit ekkert hvað ég ætla að kjósa! Ég sem hélt að ég væri Sollu gaur dauðans en svo virðist nú ekki vera. Mér finnst hún svo sem ekkert vera að standa sig illa en hún stendur sig kannski ekki eins vel og ég hafði búist við. Mér finnst eiginlega leiðinlegast að hlusta á hana tala samanborið við hina leiðtogana og þá sér í lagi þegar hún er að tala um skattamálin þó vissulega sé margt til í því sem hún er að segja. Mér finnst Steingrímur koma best og ábyrgast út úr þessu enn sem komið er. Hann er með skýra stefnu og það er fínt að hafa svona gagnrýnisrödd inn á milli. Formaður Frjálslyndra á oft erfitt að koma fyrir sig orðinu og virkar oft kraftlaus enda akfeitur. Það ætti nú kannski frekar að bjóða honum Nupolétt í stað vatns í öllum þessum sjónvarpsumræðum. Halldór hefur svo sem staðið sig ágætlega líka og komið sínum málum á framfæri. Davíð finnst mér alltaf vera að reyna of mikið að vera rólegur og það fer í taugarnar á mér þegar hann heldur því fram að allt sé æðislegt og kaupmátturinn sé búinn að aukast svona og svona og því hljóti allir að hafa það alveg geggjað. Ég veit ekkert hvað ég ætla að kjósa!





11.4.03

Brjálaði Íraninn hringdi nokkrum sinnum í nótt og játaði mömmu ást sína. Mamma fékk nóg og fór með símann inn í eldhús þar sem hún kveikti á útvarpinu og lagði símann upp að. Með þessu athæfi vildi hún fæla ástsjúka Íranann frá því að hringja í okkur en þetta skapar mjög óþægileg hljóð. Í morgun hringdi hún svp upp í Síma og lét loka fyrir símtöl að utan. Hann hringir örugglega næst í farsímana okkar.

10.4.03


Það er kominn nýr pie þáttur :)

Það er einhver kreisj Írani nýfarinn að hringja hingað heim villt og galið. Hann hringdi til að mynda tvisvar klukkan hálf átta í morgun og svo var ég rétt í þessu að fá símtal frá honum. Hann sagði nú bara halló og ég skellti á. Fyrir tveimur árum lentum við í svipuðu atviki þar sem Írani hringdi á fullu og sagði aldrei neitt nema fullt af halló-um. Sennilega sami gaur.

8.4.03

Hnyttni síðunnar, almenn orðspeki og skemmtilegheit breiðast út með ógnarhraða. Lesendum snjallra og þroskaðra pistla minna fjölgar dag frá degi. Nú hefur hún Katrín bombað upp tengli að mér á síðunni sinni. Það var skynsamlegt hjá henni.

Annars mætti halda að Siggi væri farinn að semja auglýsingar. Hvað er málið með þær núna? Ég er DV. . . . .

6.4.03

Ég var að horfa á The Bachelorette áðan og mér eiginlega býður við þessu. Þetta er jafn brenglað og hugsunarháttur Hauks. Hvað er málið með þetta? Kona sem er að reyna að finna einu sönnu ástina fyrir framan allan heiminn deitandi ég veit ekki hvað marga á sama tíma. Þetta er svo óeðlilegt og amerískt að hálfa væri nóg. Svo eru þessar rósaathafnir með því hallærislegasta. Kynnirinn er samt bestur. Hann er gjörsamlega ónauðsynlegur en kemur fyrir hér og þar eins og þegar hún átti eina rós eftir þá sagði hann: Nú áttu eina rós eftir. Sikk þættir!

5.4.03

Ég vil nota tækifærið og biðja Sigga um að snarhætta að senda mér þessi ógeðslegu sms sem ég fæ iðulega frá honum. Í þeim stendur oftast að hann sé að koma við sig eða sé nakinn eða eitthvað álíka. Í nótt sendi hann mér Ég er á typpinu. Ég hef bara engan áhuga á að vita þetta Siggi. Þú ert pervert og sjálfum þér verstur.

Ég var að horfa á Seven years in Tibet núna áðan sem rifjaði upp asnalegar minningar. Ég fór á hana í bíó á sínum tíma og í einhverju sniðugheitakúlkasti henti ég einu poppi aftur fyrir mig. Ég veit enn ekki af hverju. Stuttu seinna treður fertugi gaurinn fyrir aftan mig fullri lúku af poppi inn á mig og segir: Hérna er poppið þitt!

3.4.03

Mesta böggið
Þegar maður þarf alveg mest að hnerra og allt er að fara að gerast en svo hnerrar maður ekkert!

Það er undantekning ef ekki er fullt fólk í tólfunni frá Hlemmi eftir verklegu örverufræðina á fimmtudagskvöldum. Það er oft með leiðindi, talar hátt og skammast yfir því að tólfan skuli stoppa í Mjódd til að bíða eftir hundraðogellefunni. Í kvöld var þar engin undantekning á og hlammaði fullt miðaldra par sér beint fyrir framan mig þar sem ég sat aftast hugsandi eitthvað hámerkilegt. Ég hafði þó lúmskt gaman af því að hlusta á þau tala saman en talsmátinn var eins og hjá 13 ára gelgjum. Gaurnum fannst greinilega svolítið kúl að lemja fólk en það hafði einhver beðið hann um að lemja Sævar Síselskí en honum fannst hann ekki þess virði. Svo lamdi hann pervert um daginn. Í Mjóddinni hótaði hann svo að keyra strætóinn sjálfur og þar næst fóru þau í sleik. Auj! Ég var beint fyrir aftan þau! Stuttu seinna komu svo inn krakkar sem hermdu eftir öllu sem þau sögðu. Þá fóru þau að herma eftir krökkunum. Asnaleg ferð!

2.4.03

Þetta er nú hálfgerð brenglun. Guð heldur með einstökum keppendum í Survivor og svo auðvitað stendur hann með Bush í stríðinu. Kanar eru asnakollar!

1.4.03

Þetta er algjör snilld! Vel reynandi fyrir fátæka námsmenn!

Að deyja úr Agli
Maggi og Toggi komu með skemmtilega sjúkdómsgreiningu um daginn. Eins og alkunna er hefur það færst inn í málvenju ýmissa undanfarið að tala um að það sé einhver Egill í fólki þegar það nennir ekki að gera hlutina. Að sama skapi getur þessi tilhneiging ágerst og flust í ónæmsikerfið og jafnvel fleiri vefi. Hjartað fer að slá hægar, frumur hætta að nenna að skipta sér og hvítu blóðfrumurnar nenna ekki að framkvæma sína vinnu. Þær taka sér lengri kaffipásur, sofa frameftir og nenna ekki að eltast við hina og þessa sýkla. Nú skilst mér að Viktoría, gullfiskurinn hans Hauks, sé að við dauðans dyr. Hann er alltaf á sama staðnum og hreyfir sig ekki einu sinni þótt potað sé í hann. Hann hefur þó ekki enn gefið upp öndina en virðist þjó þjást af Agli á lokastigi.