Pleasure, pleasure!

26.2.03

Eins og allir vita hefur vegur Hauks innan málefnalegrar háskólapólitíkarinnar farið sífellt vaxandi undanfarið og er fólk farið að bera fyrir honum óttablandna virðingu. Ég vaknaði því fyrr en líkami minn samþykkti með góðu móti í morgun og drösslaðist niður í VRII til þess að vera kosninga side-gimpið hans milli tíma. Það var þó ekki mikið sem við gerðum þarna enda leyfði Haukur mér að fara klukkutíma fyrr sökum óbilandi mikilmennsku og almennra yfirburða. Seinna um daginn spilaði ég svo á tónleikum með litlum þokka enda var ég að farast úr stressi þessa stuttu stund sem ég var að spila. Ég hafði engar áhyggjur haft af þessum tónleikum og var lítið búinn að hugsa um þá dagana á undan sem er víst ekkert sniðugt. Það er sem sagt gott að vera stressaður fyrir tónleika en ekki á meðan maður er að spila.

Það sem hér kemur á eftir mega aðeins Brynjar og Sigga lesa!
Ég get loksins boðið ykkur í mat á laugardaginn því mamma og pabbi eru að fara á árshátíð. Sökum takmarkaðra matreiðsluhæfileika minna mun ég sennilega bjóða ykkur upp á eitthvert jurtakálssalat en það verður allt í lagi ef við drekkum nógu mikið að víni :Þ

25.2.03

Var geggjað duglegur að læra hjá afa og ömmu í dag og svo þegar ég var að fara heim kom amma mín 78 ára og spurði hvort ég ætlaði ekki að horfa á Survivor með henni. Ég hafði ekki hugmynd um að hún fylgdist með þessum þáttum en það ætti svo sem ekki að koma mér neitt sérlega á óvart í ljósi þess að hún er Formula 1 aðdáandi. Hún var á því að stelpurnar væru algjörar lufsur hafði meiri trú á strákunum. Gó amma!

24.2.03

Ég var að koma heim af myndinni The ring þar sem ég sat mest allan tímann í hnipri og nagaði á mér hnén. Þegar spennan var í hámarki brá ég oft úlpunni milli tjalds og augna. Mér finnst ég þó hafa borið mig vel. Þegar ég svo kom heim ákvað ég að fara frekar inn að framan því ég þorði ekki að labba í gegnum kjallarann. Mögnuð mynd fyrir aumingja eins og mig!

22.2.03

Ég sit nú við tölvuna í jakkafötum bíðandi eftir að Haukur sæki mig á árshátíðina sem ég ákvað að skella mér á eftir suddalegar hótanir Viðars. Annars er orðið frekar langt síðan ég fór seinast í jakkafötin mín en eins og dyggir aðdáendur tilveru minnar vita þá þoli ég einmitt ekki þann hégómaklæðnað. Það er þó orðið langt síðan þvílíkur þokki sást hér á heimilinu því faðir minn tapaði honum fyrir nokkrum árum sem er alveg furðulegt miðað við hvað við erum líkir.

Við Brynjar mættum upp í Engjateig áðan til að spila á svokölluðum "tónfundi" þar sem nemendur kennara okkar hittast og spila og þurfa svo að hlusta á uppbyggjandi gagnrýni frá Ze mæstó. Þar sem ég og Brynjar vorum eitthvað að tala saman og flissandi eins og sjö ára stelpur, og þá aðalega hann, tók hann okkur fyrir og skammaði okkur í takt við sjö ára stelpustæla okkar. Ég hélt þokka þó betur en Brynjar.

21.2.03

Hvað er málið með föstudaga? Það er mér bara óvinnandi vegur að læra á föstudögum. Ég opnaði bók áðan og las nokkrar blaðsíður og ég hef ekki hugmynd um hvað þær fjölluðu! Annars var veðrið svo subbulegt áðan að ég tók strætó heim út píanótímanum áðan. Það tók mig með bið sennilega lengri tíma en ef ég hefði labbað :Þ Ég komst þó þurr heim fyrir vikið.

Svo styttist óðum í æfingar með strengjasveit tónskólans en við erum að fara að flytja konsert fyrir þrjú píanó og strengjasveit BWV 1064 eftir J.S. Bach eftir minna en mánuð. Aðdáendur mínir muna sennilega eftir gríðar þokkafullum flutningi okkar á fyrstu tveimur köflunum í fyrra en nú tökum við hann allan! Ég er með kreisíj sóló í seinasta þættinum og mun þokkinn af mér skína sem aldrei fyrr!

20.2.03

Jurtir rokka
Var algjör töffari í dag og keypti mér Einkalíf plantna eftir David Attenborogh á bókaútsölu í dag. (Kostar 500 krónur í Eymundsson í Kringlunni fyrir gríðaráhugasama). Þetta er einmitt það sem við vorum að læra um í grasafræðinni fyrir jól. Mjög áhugavert ef maður er grasasni.

Ég held annars að ég sé að snappa. Tók upp á því fyrir tveimur dögum að lesa mér til um þróun manna í dýrafræðibókinni frá því fyrir áramót og nú kaupi ég mér bók um plöntur til að lesa í frítíma mínum. Ég held að of mikil samskipti við ömurlegan og vanþroskaðan persónuleika Hauks hafi ýtt mér á þessa braut.

Morgunmatur hönks! (Eða rétt fyrir hádegismatur)
2 ólgandi ristuð brauð með osti og dauðum dýrum
Gutlandi skál af bláberjaskyri
Appelsínusafi

(gott blogg)

Það er spurning hvort maður skelli sér á árshátíðina á laugardaginn. Ég var eiginlega búinn að taka þá ákvörðun að fara ekki því þetta er svo dýrt en svo hótaði Viðar að drepa alla í fjölskyldunni minni og brenna píanóið mitt ef ég kæmi ekki. Þegar ég sagði svo að það væri ágætt að losna við Snorra sagðist hann ætla að drepa alla nema hann. Ætli ég neyðist ekki til að kaupa mér miða.

19.2.03

Allt að gerast
Eins og glöggir taka hugsanlega eftir er ég búinn að skipta aftur yfir í þetta útlit hér. Ég fékk eiginlega hundleið á hinu útlitinu fljótlega, svona eins og maður fær leið á persónuleika Sigga. En hafið engar áhyggjur . . . ég var ekki lengi að þessu og hefur tíma mínum í kvöld, af mikilli speki og skynsemi, verið að hluta til varið í lestur um ensím.

18.2.03

Sörvæver plörvæver!
Þetta var nú BARA asnalegur þáttur. Keppnin á milli ættbálkanna var AÐEINS og tæp og fékk maður það allhressilega á tilfinninguna að þættirnir séu eftir handriti. Þetta var nákvæmlega það sem kallarnir áttu skilið eftir hrokann. Algjört bull segi ég nú bara. Horfi samt örugglega á næsta þátt :Þ

17.2.03

Ég komst að því áðan að nýja Survivor serían er að byrja núna eftir smá stund. Heimsókn Hauks hingað var því snarlega frestað og ég rétt náði að láta hann vita. Það er þó spurning hvort maður nenni að hanga yfir þessu lengi. Seinasta sería var nú ekki sérlega skemmtileg.

Mesta böggið
. . . . þegar maður heyrir í púlsinum í einhverri æð í eyranu þegar maður er að reyna að sofna.

16.2.03

Fínt lag, fínt lag . . . . Besta lagið? Ómögulegt að segja . . . (hálfvitar)
Ég fór til Sigga í gær og góndi á Júró draslið þar með misskemmtilegu fólki. Það er óhætt að segja að húmorinn í Gísla Marteini og Loga hafi ekki verið að gera góða hluti. Það var þó frekar fyndið þegar Gísli sagði Hreimi að fara að hreyfa aftur varirnar og svo þegar Logi sagði að Páll Óskar væri alltaf að glenna sig.

Annars fannst mér frekar fyndið að keppninni hafi verið sjónvarpað til Færeyja eingöngu vegna þess að Eivør Pálsdóttir tók þátt. Ég fór á Sosialurin.fo og fann þetta þar:

Eivør verður landskend í Íslandi
Eivør Pálsdóttir hevur nógv um at vera, men hon ætlar sær at luttaka í íslendska Grand Prixnum við heilum hjarta. Hon roknar tó ikki við at vinna

15.2.03

Hvað haldiði að hún móðir mín hafi látið mig gera núna áðan í þynnkunni? Hún skipaði mér að þrífa klósettið! Hvar er mannúðin?

Annars er þetta með því fyndnasta sem ég hef séð. Hvernig er hægt að vera svona fyndinn? Siggi getur margt lært af þessu.

Ég fór í vísindaferð niður á Náttúrufræðistofnum með líffræðinni í gær og þaðan fórum við á Reðursafnið sem var algjör snilld. Typpasafnarinn er algjör húmoristi og leiddi okkur í gegnum safnið, sem er reyndar ekki stórt, og fræddi okkur um hvern böllinn á fætur öðrum. Á Hverfisbarnum hittum við Edda norsarann Tómas sem talaði svo slæma ensku að það var hálfvandræðalegt enda vorum við ekki lengi að láta okkur hverfa.

En talandi um útlendinga. Lilly lesbíska kanavinkonan hans Snorra ætlar að koma aftur til landsins í næsta mánuði. Það virðist sem þokki minn hafa aflessað hana.

12.2.03

Ég og Brynjar frekna kíktum til Siggu í gær og góndum á spólu. In the bedroom varð fyrir valinu og hún kom mér alveg þvílíkt á óvart.

Þegar ég kíkti svo á síðuna hennar Siggu til að athuga á hvaða hátt hún hefði lofað nærveru mína (sem hún er ekki búin að gera!) rakst ég á þetta próf:

YOU RAN OVER A SMALL CHILD AND LEFT HIM TO DIE!!!


what's YOUR deepest secret?
brought to you by Quizilla

9.2.03

Ég komst að því í fyrradag mér til lítillar furðu að kanastelpan var lesbía. Það er ekki skrýtið að hún hafi ekki orðið yfir sig ástfangin af mér. Ef hún hefði verið hér aðeins lengur hefði ég sennilega snúið henni um 180° með nærverunni einni saman.

7.2.03

Á stefnuskránni:

1. Klippa á mér táneglurnar
2. Fara að drullast í fyrirlestra fyrir hádegi
3. Hlæja að bröndurunum hans Sigga


Allt illframkvæmanlegt og þá sér í lagi það síðasta.

6.2.03

Haus fram yfir klof
Þá er kanastelpan farin héðan til að gista hjá öðrum vinum sínum hér á landi en ég held því fram að hún hafi flúið þokka minn (sjá mynd til hægri). Hún hefur fundið að hún hafi verið að verða ástfangin og látið skynsemina ráða. Ég vildi ekkert með hana hafa þannig að þetta var skynsamlegt hjá henni. Ég held hún fari á morgun því mér skilst að Snorri sé að fara að detta í það með henni í kvöld.

5.2.03

Allt að gerast
Í dag jók ég samskipti mín við kanastelpuna svo um munaði. Í framhaldi af því sá ég að hún er með óvenju stórar tennur en þar til áðan hafði ég eingöngu sagt við hana hi, welcome og have fun. Hún var að segja mér að hún þekkir Sigur Rósar meðlimina þó nokkuð enda búin að fara átta sinnum á tónleika með þeim og verið nokkrum sinnum baksviðs að sulla í sig bjór með þeim. Svo keypti hún sér Engla alheimsins á DVD og horfðum við á hana saman áðan. Meira af stórtennta kananum seinna. . . .

4.2.03

Þá er kanastelpan komin og tek ég það til baka að hún sé lufsa. Þar að auki lítur hún ekki út fyrir að vera stelsjúk en maður veit þó aldrei. Hún var sofandi þegar ég kom heim úr vefjafræðinni í dag og nú er hún nýfarin með Snorra á tónleika á Gauknum þannig að ég er ekki búinn að tala mikið við hana. Ég er samt ekki frá því að hún hafi stöðugt verið að blikka mig!

Þrastarhólar brátt kanasaurgaðir!
Snorri á von á næturgesti inn á heimilið núna á morgun frá Bandaríkjunum. Þetta er einhver stelpa sem hann og félagar hans kynntust á einhvern subbuhátt í gegnum netið og fékk hann leyfi til þess að veita henni húsaskjól þann stutta tíma sem hún verður hér á landi. Ekki veit ég hvað hún móðir mín sem hefur úrslitavaldið hér á þessu heimili var að pæla. Stelpuskömmin er sennilega þjófótt auk þess sem ég er dauðhræddur um að hún verðir ástfangin af mér og vilji ekki fara heim aftur.

3.2.03

Á hverju sunnudagskvöldi deyr smá hluti af mér við tilhugsunina um mánudaginn sem er að taka við.

Annars er netið ömurlega leiðinlegt núna og þetta er ykkur bloggurum til háborinnar skammar!